top of page
Glaesir_fra_Torfunesi.jpg

VINNUM SAMAN AÐ ÖFLUGRI ÍÞRÓTTA-, ÆSKULÝÐS- OG MENNINGARMÁLUM

Framfarasinnar vilja að Ölfusið verði heilsueflandi samfélag og að stefna sveitarfélagsins í málaflokknum taki mið af því að bæta heilsu og færni fólks á öllum aldri. Í íþróttamiðstöð Þorlákshafnar er boðið upp á skipulagða líkamsrækt fyrir 60 ára og eldri sem er mjög gott og viljum við að það verkefni eflist. Við erum eitt fárra sveitarfélaga á landinu sem bjóða leikskólabörnum frá fjögurra ára aldri upp á íþróttaiðkun þar sem þjálfarar sækja börnin í leikskólann og fylgja þeim aftur að æfingu lokinni sé þess óskað. Þetta er þjónusta sem við erum afar stolt af og munum leggja alla áherslu á að halda henni áfram þegar nýr leikskóli rís í Vesturbergi. Við ætlum að þróa íþróttaskóla fyrir börn innan við 2ja ára meðal annars til að örva hreyfiþroska og auka lífsgæði. Ætlunin er að öll börn í sveitarfélaginu á leikskólaaldri og eldri hafi kost á að stunda íþróttir og/eða tómstundir við hæfi.


Staðið hefur verið þétt við allar þær íþróttagreinar sem hér hafa verið stundaðar, nýtt fimleikahús var klárað á líðandi kjörtímabili og nýjar stúkur í íþróttahúsið eru væntanlegar sem er orðið tímabært. Fylgja þarf eftir þeirri markvissu uppbyggingu sem farið hefur fram á íþróttamannvirkjum í samvinnu við íþróttafélögin, svo aðstaðan til íþróttaiðkunar verði með sem allra besta móti. Iðkun rafíþrótta er vaxandi og leggja þarf áherslu á að fylgja þeirri þróun með því að byggja upp viðeigandi aðstöðu. Mikilvægt er að hefja strax undirbúning að byggingu fjölnota íþróttahúss þar sem sérstaklega verður gert ráð fyrir bættri aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir, knattspyrnu og æfingasvæði fyrir iðkendur golfíþróttarinnar. Hestaíþróttir skipa stóran sess í flóru íþrótta í sveitarfélaginu og eigum við efnilegt og framúrskarandi hestaíþróttafólk. Huga þarf að bættri aðstöðu fyrir íþróttina.


Framfarasinnar ætla að standa þétt við bakið á meistaraflokkum og afreksíþróttafólkinu okkar því allt íþróttastarf eflist og þroskast þegar við höfum góðar fyrirmyndir í nærsamfélaginu.

Vinnum saman að:

- því að stækka og bæta heilsuræktarsvæði fyrir almenning og íþróttafólk


- hönnun og framkvæmd á fjölnota íþróttamannvirki


- nauðsynlegu viðhaldi og æskilegri endurnýjun á íþróttamannvirkjum


- gagngerri andlitslyftingu sundlaugarinnar með þjónustubót fyrir íbúa og aðdráttarafl að leiðarljósi, m.a. með nýjum vatnsrennibrautum


- hönnun og framkvæmd á fjallahjólastígum um Ölfusið í samstarfi við félag fjallahjólara í Ölfusi og Þorláksskóga


- að markvissri uppbyggingu á aðstöðu fyrir vélhjólaíþróttir


- því að veita íþróttafélögum beina styrki til áhalda- og tækjakaupa auk geymsluaðstöðu fyrir búnað


- því að styrkja áfram leikfélagið og hljómlistafélagið


- ráðningu menningar- og viðburðafulltrúa í fasta stöðu


- því að halda áfram að styrkja viðburðafélagið Þollóween með árlegum styrk með tilliti til stækkunar á viðburðinum


- áframhaldandi heilsueflingu fyrir eldri borgara með þjálfun


- aukinni fræðslu um heilsueflingu fyrir eldri borgara


- aukinni áherslu á forvarnargildi félagsmiðstöðvar


- áframhaldandi stuðningi við rafíþróttir


- undirbúningi byggingar nýrrar reiðhallar í samstarfi við Hestamannafélagið Ljúf og Hveragerðisbæ


- jöfnum tækifærum fyrir öll börn til að stunda íþróttir og tómstundir sem þeim henta

Vinnum saman að öflugri íþrótta-, æskulýðs- og menningarmálum: Causes
bottom of page