top of page
Thorlakshofn-loftmynd.jpg

VINNUM SAMAN AÐ BETRI SKIPULAGS-, UMHVERFIS- OG SAMGÖNGUMÁLUM

Ásýnd sveitarfélagsins alls hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár. Ný íbúðahverfi byggjast upp í Þorlákshöfn, fleiri eru í skipulagsferli en einnig byggist mjög hratt upp í Ölfusinu og þéttbýliskjarnar eru að myndast. Mikilvægt er að móta stefnu um þéttingu byggðar í Ölfusinu, vanda skipulagsvinnu og einfalda ferla þar sem það á við. Svo að vel til takist við uppbyggingu húsnæðis verður að vinna raunhæfa húsnæðisáætlun og stefnu í uppbyggingu húsnæðis í sveitarfélaginu öllu. Brýnt er að stytta boðleiðir og auka tengsl og samvinnu á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Því höfum við það að leiðarljósi að mynda fimm manna tengslaráð með það að markmiði að Sveitarfélagið Ölfus verði meiri heild.

Sveitarfélagið hefur farið á undan með góðu fordæmi hvað varðar umhirðu og reglulega er blásið til hreinsunarátaks í Ölfusinu sem haldið verður áfram með. Úrbætur á fráveitu Þorlákshafnar þarf að taka föstum tökum og koma á hreinsistöð hið fyrsta. Aukin umhverfisvitund íbúa samfélagsins hafnar því að úrgangur fari óheftur út í sjó. Upphefja þarf Þorláksskógaverkefnið því þar eru tækifærin óþrjótandi og framtíðarverðmætin fyrir samfélagið gríðarlega mikil.

Vegna aukinna þungaflutninga er brýnt að þrýsta á Vegagerðina að tryggja umferðaröryggi á vegum í sveitarfélaginu með uppbyggingu og endurbótum. Mikilvægt er að færa akstur þungaflutninga úr miðbænum með því að búa til nýja akstursleið norðan við bæinn. Einnig kallar aukin umferð skipa og flutningabíla um Þorlákshöfn á það að setja upp loftgæðamæla til að fylgjast með áhrifum þessarar þróunar.

Vinnum saman að:

- því að móta stefnu um uppbyggingu í sveitarfélaginu og einfalda verkferla í skipulagsmálum með leiðbeinandi upplýsingum


- faglegri húsnæðisáætlun og húsnæðisstefnu


- skipulagningu nýs miðbæjar


- áframhaldandi stuðningi við viðhald og uppbyggingu á göngu- og reiðstígum og bæta lýsingu í hesthúsahverfinu


- uppbyggingu göngu- og hjólastígs Árborgarhringinn í samstarfi við nágrannasveitarfélögin og Vegagerðina


- því að byggja upp aðstöðu fyrir brimbrettaiðkun og því að skipuleggja Nesið sem útivistarsvæði með göngustígum með Bjarginu ásamt áningarstöðum með bekkjum


- áframhaldandi uppbyggingu og viðhaldi á mannvirkjum í Reykjadal ásamt því að dreifa álagi um dalinn með bættu aðgengi að gönguleið frá Ölkelduhálsi


- nýju skipulagi á Þorlákshafnarsandi í samstarfi við samstarfsaðila Þorláksskóga


- því að tryggja aðgang að nægu rafmagni og heitu og köldu vatni til framtíðaruppbyggingar í Ölfusi


- því að íbúar dreifbýlisins geti einnig notað ruslamiða á gámasvæðum í Hveragerði og Árborg og stefnum að rafrænum lausnum fyrir alla íbúa


- því að fráveitumálum verði komið í viðunandi horf hið fyrsta með viðeigandi hreinsibúnaði


- því að halda áfram að fegra innkomu bæjarins og endurnýja götur, lagnir og gangstéttir í elsta hluta hans


- því að ganga jafnóðum frá opnum svæðum þegar byggingaframkvæmdum lýkur


- því að koma upp loftgæðamælum í Þorlákshöfn til að hægt sé að meta áhrif skipaumferðar, flutningabifreiða o.fl. á andrúmsloftið


- því að þrýsta á Vegagerðina að klára Þorlákshafnarveg, gera verulegar úrbætur á Þrengslavegi og Ölfusvegi upp í Hveragerði og þrýsta á um lýsingu við Eyrarbakkavegamót og Þrengslavegamót efri


- því að binda að lágmarki einn afleggjara í Ölfusi slitlagi á ári, að lýsa upp gatnamót og að vetrarþjónusta sé viðunandi


- því að bæta umferðaröryggi í Þorlákshöfn með því að koma upp öryggisbúnaði þar sem við á, s.s. speglum við varasamar beygjur

Myndin á síðunni er eftir Þórarinn Gylfason.

Vinnum saman að betri skipulags-, umhverfis- og samgöngumálum: About Us
bottom of page