top of page
Ithrottahusid.jpg

VINNUM SAMAN AÐ ÖFLUGRI FRÆÐSLU- OG VELFERÐARMÁLUM

Fræðslu-, uppeldis- og velferðarmál eru mikilvægar grunnstoðir samfélagsins. Framfarasinnar í Ölfusi leggja höfuðáherslu á að standa áfram vörð um metnaðarfullt leik- og grunnskólastarf í sveitarfélaginu. Við ætlum að tryggja áframhaldandi góða leikog grunnskólaþjónustu í Hveragerði og Árborg fyrir börn búsett í Ölfusi. Áhugi er á að auka samstarf milli Grunnskólans í Þorlákshöfn og Grunnskólans í Hveragerði um valgreinar og að koma á samstarfi við Garðyrkjuskólann á Reykjum. Við ætlum að vinna þarfagreiningu á leikskólarýmum fyrir börn búsett í Ölfusi og kanna hvort það sé grundvöllur fyrir nýjum leikskóla í dreifbýlinu.


Framfarasinnar vilja að settur verði saman starfshópur sem samanstendur af reynslumiklu fagfólki innan leikskólans, arkitekt, fulltrúa foreldra og fulltrúa fjölskyldu- og fræðslunefndar sem vinna mun saman að mótun stefnu leikskólans sem rísa mun í Vesturbergi. Framfarasinnar ætla að bregðast við vilja íbúa um að hér sé val um leikskóla með því að setja aukinn kraft í stefnumótun, hönnun og framkvæmdir við byggingu nýja leikskólans svo hann rísi sem allra fyrst.

Nú þegar eru skólastjórnendur og starfsfólk farið að huga að næsta skrefi í stækkun Grunnskólans í Þorlákshöfn, en mikilvægt er að skólinn verði stækkaður í takti við fjölgun nemenda. Taka þarf tillit til húsnæðisþarfa Frístundar í þessari vinnu þar sem sá hópur sem nýtir þar þjónustuna stækkar í hlutfalli við fjölgun nemenda skólans. Námsverið Bjarg hefur sannað gildi sitt en það er ætlað nemendum sem ekki geta stundað nám sitt alfarið inni í bekk. Bæta þarf við rými og fagfólki eftir þörfum svo öll börn sem á þurfa að halda fái aðgang að því góða starfi sem þar er unnið.


Mikil þróun er í nýtingu upplýsingatækni við kennslu en á þessu ári voru lagðar í það verkefni 10 milljónir króna. Mikilvægt er að haldið verði áfram að styðja nám í skólum sveitarfélagsins með nýrri tækni.


Við innleiðingu á farsældarlögunum þurfum við að bregðast við aukinni þörf á sérfræðingum í velferðarþjónustu og sjá til þess að ráðinn verði verkefnastjóri til að stýra innleiðingunni. Vel heppnuð innleiðing farsældarlaganna, þar sem meginstefið er að bregðast fyrr við aðstæðum, mun til framtíðar án efa bæta líf margra og leiða til sparnaðar fyrir samfélagið.


Efla þarf félagsmiðstöðina með forstöðumanni í 100 % starfi og bættri fræðslu fyrir starfsfólk um félagsstarfssemi og forvarnir. Þannig byggjum við upp metnaðarfullt félagsstarf fyrir unglingana okkar með ríku forvarnargildi.


Framfarasinnar munu hafa að leiðarljósi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlað fólks þar sem m.a. segir að meginmarkmið sé að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra. Framfarasinnar vilja í samstarfi við notendur og byggðasamlög byggja upp auðugt samfélag fyrir alla. Fatlað fólk á að geta lifað sjálfstæðu lífi, valið sér atvinnu við hæfi og sinnt áhugamálum sínum og félagslífi. Það er mikilvægt að fatlað fólk sem vill búa á eigin heimili eigi kost á því að láta þann draum rætast, til jafns við aðra og fái viðeigandi stuðning til þess.

Vinnum saman að:

- því að settur verði saman starfshópur sem vinnur að uppeldisstefnu, hönnun og framkvæmd nýs leikskóla


- endurskoðun á leikskólagjöldum með það að leiðarljósi að lækka þau verulega eða fella niður að fullu í áföngum


- lækkun inntökualdurs leikskólabarna úr 18 mánaða í 12 mánaða við opnun nýs leikskóla


- því að halda uppi menntunarstigi starfsfólks leik- og grunnskóla


- skólaakstri fyrir grunn- og framhaldsskólanema sem er í samræmi við þarfir þeirra og búsetu og endurmetum árlega þarfir á skólaakstri í Ölfusi


- stuðningi við aukið list-, verk- og tækninám í Grunnskólanum Í Þorlákshöfn


- því að sinna áfram börnum með sértæka náms- og hegðunarerfiðleika og samþættingu stuðningskerfa í samræmi við farsældarlögin


- stuðningi við framúrskarandi nemendur eftir þörfum og vilja nemandans


- uppsetningu útikennslusvæðis sem verði aðgengilegt fyrir börn á öllum skólastigum


- stuðningi við einstaklinga sem vilja mennta sig í leikog/eða grunnskólakennarafræðum og öðru námi sem nýtist á þeim starfsstöðum þar sem vöntun er á fagfólki


- auknu framboði afþreyingar á vegum sveitarfélagsins fyrir ungmenni, einkum 16-20 ára


- aukinni stuðningsþjónustu fyrir fólk með fötlun og/eða sérþarfir


- því að fjölga búsetuvalkostum fyrir fólk með fötlun


- áframhaldandi góðri skólaþjónustu í Hveragerði og Árborg


- því að styrkja skóla- og velferðarþjónustuna í samræmi við niðurstöður úttektar sem gerð var á þjónustunni

Myndin á síðunni er eftir Þórarinn Gylfason.

Vinnum saman að öflugri fræðslu- og velferðarmálum: About Us
bottom of page