top of page
Habba.jpg

HRAFNHILDUR HLÍN HJARTARDÓTTIR

4. sæti

Ég heiti Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir og er 37 ára. Ég starfa sem hegðunarráðgjafi hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings en er leikskólakennari í grunninn. Ég er gift Árna Má Haraldssyni, deildarstjóra gjörgæsludeild Landspítalans Hringbraut. Saman eigum við þrjú börn, Emblu Guðlaugu 9 ára, Kolfinnu Láru 4 ára og Harald Bergmann 1 árs. Ég er fædd og uppalin hér í hamingjunni og hef búið hér nánast allt mitt líf. Við hjónin bjuggum í Danmörku í 5 ár þar sem ég lærði leikskólakennarann.


Ég er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn. Einnig hef ég nýlokið við að læra núvitundarkennarann þar sem ég lagði áherslu á núvitund gegn streitu.


Ég brenn fyrir andlegri heilsu barna og ungmenna, að efla félagsfærni og tilfinningastjórnun til að byggja upp góðan og mikilvægan grunn að bjartri framtíð. Að mínu mati er ótrúlega mikilvægt að leggja mun meiri áherslu á andleg málefni, sérstaklega eftir tvö mjög erfið ár og er það eitthvað sem ég mun beita mér fyrir nái ég kjöri.

Sveitarfélagið okkar hefur stækkað mjög hratt síðustu ár með góðri markaðssetningu og auglýsingaherferð þar sem grunnurinn að hamingjunni var lagður. Þessi fjölgun hefur gert það að verkum að innviði sveitarfélagsins eru komin að þolmörkum. Því er mikilvægt að fara að setja kraft í nýjan leikskóla, stækkun grunnskólans og bæta frístundar- og tómstundaaðstöðu.


Mínar áherslur yrðu leikskóla- og grunnskólamál, stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra sem þurfa á því að halda, með því að efla Skóla- og velferðarþjónustuna og bæta stöðu íbúa af erlendum uppruna.

Með nýjum leikskóla, sem komin er á deiliskipulag í nýja hverfinu vestast í þorpinu, tel ég mikilvægt að bæjarbúar og starfsmenn hans séu með í að mynda þá stefnu sem við viljum hafa í leikskólanum. Almennir leikskólar á Íslandi eru afar ólíkir og geta haft ólíkar áherslur og stefnur, þótt unnið sé eftir aðalnámskrá leikskóla.

Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir: About
Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir: Pro Gallery
bottom of page