top of page
Gunnsteinn.jpg

GUNNSTEINN R. ÓMARSSON

3. sæti

Ég heiti Gunnsteinn R. Ómarsson, 51 árs vestfirðingur alinn upp í Reykjavík frá 7 ára aldri, kláraði grunnskólagöngu í Seljaskóla, er með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands, lauk prófi í viðskiptafræði af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands og er með mastersgráðu í fjármálum og alþjóðaviðskiptum frá Árósaháskóla. Ég er kvæntur Berglind Ósk Haraldsdóttur og saman eigum við fjórar dætur á aldrinum 10-19 ára og höfum við verið búsett í Þorlákshöfn í tæp níu ár. Einnig á ég 22 ára gamlan son sem er háskólanemi og býr í Reykjavík.

Ég hef starfað sem sveitarstjóri í þremur sveitarfélögum, þar á meðal sem bæjarstjóri Ölfuss árin 2013-2018. Hef einnig reynslu af bankastörfum og var í tvö ár hjá Reykjavíkurborg sem verkefnastjóri húsnæðismála og öðlaðist þar mikilvæga reynslu á sviði sveitarstjórnarmála, ekki síst sem snýr að húsnæðismálum lágtekjufólks og eldri borgara.

Við fjölskyldan höfum búið í fjórum sveitarfélögum á Íslandi auk þess að vera búsett í Árósum í Danmörku í fjögur ár.  Það eru mikil verðmæti í því að búa á mismunandi stöðum, að upplifa ólík samfélög og öðlast með því reynslu og ákveðna víðsýni ekki bara tengda sveitarstjórnarmálum. 


Ég hef komið að og leitt stór verkefni í Ölfusi sem snerta alla málaflokka en hér má nefna endurbætur og uppbyggingu Þorlákshafnar, samninga og samskipti við Smyril Line vegna starfsemi þeirra í Þorlákshöfn sem hófst árið 2017, samninga við Lýsi hf. um lokun fiskþurrkunarverksmiðju við Unubakka og uppbyggingu nýrrar verksmiðju á Víkursandi, Þorláksskóga, samninga við Laxa fiskeldi um uppbyggingu seyðaeldisstöðvar í Þorlákshöfn, samskipti við forsvarmenn Landeldis um uppbyggingu í Þorlákshöfn, samninga og samskipti við Hveragerðisbæ um uppbyggingu leik- og grunnskólamannvirkja í Hveragerði með þátttöku Ölfuss, samning við Bjarg íbúðafélag um uppbyggingu í Þorlákshöfn o.fl.

Í dag starfa ég sem skrifstofustjóri stéttarfélagsins Sameykis, stærsta stéttarfélags opinberra starfsmanna á Íslandi og held utan um daglegan rekstur þess.


Ég hef mikinn áhuga á íþróttum og sit í stjórn meistaraflokksráðs sameiginlegs kvennaliðs Hamars - Þórs í körfubolta ásamt því að vera aðstoðarþjálfari liðsins sem spilar í 1. deild þegar þetta er skrifað.  Í mínum huga er það gríðarlega mikilvægt að efla íþróttir og félagsstarf í heimabyggð svo við fáum þátttöku sem flestra og höldum unga fólkinu okkar heima.

Kæri kjósandi, ég stend fyrir vönduð vinnubrögð, einlægni, traust og heiðarleika. Mér þykir vænt um samfélagið okkar, hér eigum við fjölskyldan heimili og hér hafa dætur mínar alist upp. Að mínu mati eru óþrjótandi tækifæri í Ölfusi, hér er mikið og fallegt landsvæði auk þess sem höfnin getur boðið upp á fjölmörg atvinnutækifæri til framtíðar. Nú þarf að setja allan kraft í að fjölga fyrirtækjum og atvinnutækifærum á svæðinu með ábyrgum hætti, hlúa að innviðum og mannauði sveitarfélagsins og auka gæði stjórnsýslunnar. Ég mun vinna af heilindum fyrir þig.

Gunnsteinn R. Ómarsson: About
Gunnsteinn R. Ómarsson: Pro Gallery
bottom of page