
VINNUM SAMAN AÐ BLÓMLEGRA ATVINNULÍFI
Mikil fjárfesting og uppbygging hefur átt sér stað í málaflokknum á síðustu árum sem hófst með stækkun á innra rými og dýpkun hafnarinnar undir forystu Framfarasinna. Auk þess var gerður viðlegukantur með ekjurampi þannig að höfnin varð valkostur fyrir stærri skip, líkt og Mykinesið í eigu Smyril Line, sem hóf siglingar til Þorlákshafnar á síðasta kjörtímabili árið 2017. Geymslusvæði fyrir innfluttar vörur og tæki voru byggð upp, nýjar iðnaðarlóðir voru skipulagðar norðan við byggðina í Þorlákshöfn og voru tilbúnar til úthlutunar á þessu kjörtímabili. Þessi uppbygging er forsenda þess að í dag sigla þrjú stór vöruflutningaskip á vegum Smyril Line reglubundið á milli Þorlákshafnar og Evrópu.
Framfarasinnar hafa ávallt lagt áherslu á það við þróun hafnarinnar að endurbætur og framkvæmdir skapi tækifæri fyrir ný og tekjuaukandi verkefni. Það er og hefur verið algjör lykilforsenda að stækka höfnina til norðurs til að bæta aðstöðu fiski- og flutningaskipa og ekki síst til að draga úr þungaflutningum í gegnum bæinn og hafnarsvæðið.
Nýtt iðnaðarsvæði vestan við Þorlákshöfn var skipulagt á síðasta kjörtímabili undir forystu Framfarasinna. Lýsi hf. flutti þangað fiskþurrkunarstarfsemi sína upp úr miðju ári 2018 fyrir tilstilli Framfarasinna og teljum við að það sé helsti grundvöllur fyrir snarpri uppbyggingu húsnæðis í Þorlákshöfn. Fleiri öflug fyrirtæki horfðu til þessa svæðis fyrir atvinnuuppbyggingu sem ekki hefur orðið. Við þessu þarf að bregðast með markvissri vinnu í kynningarmálum til að laða að fyrirtæki með ný og fjölbreytt atvinnutækifæri.
Nýjum lóðum var einnig úthlutað á síðasta kjörtímabili undir fiskeldisstarfsemi sunnan og vestan við byggðina í Þorlákshöfn. Laxar fiskeldi byggði upp seiðaeldisstöð á svæðinu á síðasta kjörtímabili og Ísþór hóf stækkun á seiðaeldisstöð félagsins. Landeldi var með stór áform í samstarfi við sveitarfélagið og ánægjulegt er að sjá að sú uppbygging er að verða að veruleika.
Setja þarf aukinn slagkraft í kynningu á sveitarfélaginu öllu sem góðan kost til búsetu og atvinnuuppbyggingar.
Vinnum saman að:
- því að hlúa að þeirri starfsemi sem til staðar er í Ölfusi í dag
- því að styrkja verulega það aðdráttarafl sem er nú þegar á svæðinu; tjaldsvæðið, brimbrettaiðkun, golf og hjólreiðar (fjallahjólreiðar og vélhjólaíþróttir)
- því að styðja við atvinnulíf í sveitarfélaginu með því m.a. að hafa á skipulagi nægar lóðir og atvinnusvæði fyrir fjölbreytta starfsemi
- því að halda áfram uppbyggingu hafnarmannvirkja og umhverfis þeirra fyrir umhverfisvæna hafnsækna starfsemi
- markaðssetningu Þorlákshafnar fyrir farþegaferjur og skemmtiferðaskip
- auknu vægi og uppbyggingu á ferðaþjónustu í sveitarfélaginu
- því með Vegagerðinni að tryggja sýnileika fyrirtækja í Ölfusi við þjóðvegi
- því að tryggja aðgengi fyrirtækja að auðlindum sveitarfélagsins, t.d. raforku og vatni til upphitunar og neyslu
- því að styðja við og laða fram það besta hjá starfsmönnum stofnana sveitarfélagsins með því að hlúa að mannauðinum
- því að taka upp markvisst samtal við ferðaþjónustuaðila með það að markmiði að gera sveitarfélagið að eftirsóttum áfangastað
- því að hlúa að frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun
- því að laða að sveitarfélaginu lítil og meðalstór fyrirtæki til að auka flóruna og fjölga atvinnutækifærum
Myndin á síðunni er eftir Þórarinn Gylfason.